Bífósfónöt

Lyfjameðferð gegn beinþynningu – bífósfónöt

Dr. Björn Guðbjörnsson,dósent í gigtlækningum og  formaður Beinverndar

Í fyrsta tölublaði 2. árg. af fréttabréfi Beinverndar (05/2004) var fjallað um hvernig standa skuli að því að sjúkdómsgreina beinþynningu og ennfremur gefið yfirlit yfir helstu meðferðarkosti lyfjameðferðar (mynd 1). Í þessum pistli verður fjallað um bífósfónat lyfjahópinn, en sá lyfjahópur er best prófaður með tilliti til meðferðarárangurs og öryggis af öllum þeim lyfjum sem notuð eru gegn beinþynningu. Ennfremur er komin meira en áratuga reynsla af notkun þessa lyfjaflokks hér á landi.

Mynd 1

Mynd 1

Sögu bífósfónanta má rekja aftur til sjöunda áratugarins er iðnaðarefnafræðingar unnu að því að finna hreinsilög eða sápu sem gæti komið í veg fyrir kalkútfellingar í vatnsrörum. Þannig uppgötvaðist efnasamband bífósfónata. Síðari tilraunir sýndu að þessi efni höfðu áhrif á bein og í tilraunadýrum kom í ljós að bífósfónöt höfðu umtalsverð áhrif á beinumsetningu í þá átt að auka beinþéttni tilraunadýranna.

 

Beinið er lifandi vefur þar sem sífellt beinniðurbrot af völdum beinfrumna sem nefndar eru beinbrjótar (osteoclast) á sér stað og hins vegar verður hægfara en stöðug beinnýmyndun af völdum annarra beinfrumna er kallast beinbyggjar (osteoblast). Það eru fleiri beinfrumur í beinvefnum en þessar tvær tegundir, en beinbrjótar og beinbyggjar skipta höfuðmáli og eru aðalleikarar á „beinasviðinu”. Á sumum þroskaskeiðum, t.d. á unglingsárum, hafa beinbyggjar yfirhöndina og þá margfaldar beinmagn manna, en eftir tíðahvörf hjá konum taka beinbrjótar yfirhöndina og því verða konur fyrir umtalsverðu beintapi fyrsta áratuginn eftir tíðahvörf. Við beinbrot taka beinbyggjar yfir og tryggja að bein grói og skekkjur réttist til í beinagrindinni. Þannig eiga sér stað sífellt beinumbrot í beinvefnum.

 

Bífósfónöt sem tekin eru í töfluformi frásogast aðeins að litlu leyti frá maga og görn, afgangurinn skilar sér með hægðum. Það sem frásogast út í blóðrásina sest að í beinum og bífósfónöt hafa þann eiginleika að setjast fast í beinvefinn og hindra þannig viðloðun beinbrjótanna við beinvefinn og koma í veg fyrir beinniðurbrot. Bísfósfónötin trufla ekki virkni beinbyggja eða umferð þeirra í beininu. Heildarniðurstaðan verður því hægfara beinauki og um leið styrkist beinið með aukinni beinþéttni.

 

Í dag er hægt að fá fjögur mismunandi bífósfónöt í töflum. Eitt þeirra Didronate®, er tekið í 14 daga í senn á 3ja mánaða fresti. Didronate® kom fyrst á markað hér á Íslandi um 1996. Önnur bífósfónöt þarf að taka inn daglega, s.s. Fosamax® og Optinate®. Tvö síðarnefndu lyfin hafa einnig verið hönnuð þannig að unnt sé að taka einungis eina töflu í viku, svonefndar vikutöflur (Fosamax® vikutafla 70 mg og Optinate Septimum® 30 mg). Þá er nýlega komin á markaðinn svokölluð mánaðartafla (Bonviv®), en þar nægir að taka eina töflu fyrsta hvers mánaðar eða tólf töflur á ári (sjá nánar töflufjölda á mynd 2). Einnig er unnt að fá bífósfónöt lyfin gefin í æð, t.d ef viðkomandi þolir þau ekki í töfluformi, en þá er lyfjadreypi oftast gefið á 3ja mánaða fresti eða sjaldnar. Á næstu misserum verður sett á markað hérlendis bífósfónat tafla sem inniheldur einnig D-vítamín (Fosavance®).  Það lyf dregur þó ekki úr nauðsyn þess að taka lýsi, en allir þeir sem taka bífósfónöt lyfin gegn beinþynningu þurfa jafnframt að tryggja sér kalk og D-vítamín og stunda  reglubundna hreyfingu.

Mynd 2

Mynd 2

Meðferðarárangur af bífósfónötum hefur verið rannsakaður ítarlega í fjölmörgum rannsóknum, bæði meðal kvenna og karla. Rannsóknir þessar sýna góðan meðferðarárangur með tilliti til beinauka, þ.e. aukin beinþéttni og fækkun beinbrota. Auk þess hafa langtímarannsóknir, allt upp í 7 til 10 ár, staðfest áframhaldandi meðferðarávinning, en langtímarannsóknir eru nauðsynlegar til að tryggja öryggi lyfjanna, enda eru flestir meðhöndlaðir með þessum lyfjum í mörg ár. Í samantekt má gera ráð fyrir 5-7% beinauka í hrygg fyrstu 2-3 meðferðarárin, en síðan hægir nokkuð á beinaukanum í hryggnum. Í mjöðm og lærleggshálsi má sömuleiðis sjá marktækan beinauka, en þó eitthvað minni miðað við beinþéttnina í hrygg. Rannsóknir sýna að brotatíðni í hrygg minnkar um helming og mjaðmabrotum fækkar einnig, sérstaklega hjá þeim sem hafa lægsta beinþéttni og hafa beinbrotnað við lítinn áverka, áður en sjálf bífósfónatmeðferðin hófst. Þá sýna fyrrnefndar langtímarannsóknir að a.m.k 5 – 7 ára meðferðartími er nauðsynlegur til að ná hámarks meðferðarárangri og við þann tímapunkt er rétt að endurmeta framhaldsmeðferðina hjá hverjum einstaklingi.

 

Meðferðarárangur er metinn með aukinni beinþéttni. Því er nauðsynlegt að gangast undir beinþéttnimælingu fyrir meðferð og síðan einu og hálfu til tveimur árum síðar til þess að tryggja meðferðarsvörun og að nýju að 5 árum liðnum til þess að taka ákvörðun um framtíðarmeðferð. Fullkomnir beinþéttnimælar eru staðsettir á Landspítala – háskólasjúkrahúsi í Fossvogi og á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri

 

Bífósfónöt lyfin þola menn almennt vel, þó hafa verið viss vandamál með inntöku lyfjanna sem kallar á sérstaka varfærni. Taka skal öll bífósfónöt lyfin á fastandi maga að morgni og nauðsynlegt er að vera í uppréttri stöðu næstu ½ – 1 klst.  eftir töfluinntökuna og drekka 1-2 vatnsglös. Hvorki má taka kalk né vítamín og ekki neyta matar eða drykkja í klukkustund á eftir. Mörgum finnst þessi morgunathöfn erfið og kjósa því viku eða mánaðartöfluna. Þessar inntökureglur eru settar til að koma í veg fyrir það að lyfið erti neðri hluta vélindans og valdi vélindabólgum. Að öðru leyti eru aukaverkanir ekki tíðar en algengast er bein- eða vöðvaverkir, höfuðverkur og meltingarfæratruflanir bæði með ógleði eða jafnvel uppköstum ásamt hægðatruflunum með niðurgangi eða harðlífi. Lyfjaofnæmisviðbrögð geta komið fram sem og við alla aðra lyfjameðferð.

 

Þegar sjúklingar fá aukaverkun af einu bífósfónati hefur reynst árangursríkt að skipta um lyfjategund. Sumar tegundir má taka milli mála ef morguninn reynist erfiður til lyfjainntöku. Því má segja að finna megi einstaklingsmiðaða bífósfónatmeðferð.

 

(Birtist í Fréttabréfi Beinverndar (05/2006)

Upp