En nú sér maður fullt af fólki að hlaupa út um allt

29.11.2017

Aðal hvatamaðurinn að stofnun Beinverndarsamtakanna fyrir 20 árum var Ólafur Ólafsson þáverandi landlæknir.
Getur þú sagt okkur aðeins frá þér sjálfum?

Ég er frá Brautarholti á Kjalarnesi. Þar ólst ég upp sem strákur og fór svo í Menntaskólann í Reykjavík. Eftir það ætlaði ég upphaflega í nám erlendis í sögu en þá þurfti að sækja um gjaldeyri sem tók langan tíma. Því fór það svo að meðan ég var að bíða eftir gjaldeyrinum fór ég í læknisfræði til að hafa eitthvað að gera. Það var reyndar töluvert um lækna í minni ætt og mér líkaði bara vel svo ég hélt áfram og lauk því námi. Eftir það tók við framhaldsnám í Kaupmannahöfn, London og Stokkhólmi eða í samtals átta ár.  Í framhaldsnáminu tók ég m.a. þátt í rannsóknum á sviði hjartasjúkdóma og faraldsfræði og þannig kom það til að ég var beðinn um að taka að mér stöðu yfirlæknis þegar Rannsóknarstöð Hjartaverndar var stofnuð árið 1967. Þá fluttum við Inga konan mín heim til Íslands og ég sá um rannsóknarstöðina í fimm ár eða þar til ég var skipaður í embætti landlæknis. Aðdragandinn að því var að staðan hafði verið auglýst, þrír til fjórir sótt um en enginn verið ráðinn. Nokkru síðar var staðan auglýst aftur og þá fóru menn að hringja í mig. Á þeim tíma var ég orðinn kennari við Háskólann og ætlaði alls ekki að sækja um en svo fór að lokum að ég gerði það. Stöðuna fékk ég og svo var ég þar í 25 ár. En mér leiddist nú alltaf skrifborðið svo ég notaði þau tækifæri sem gáfust til að fara frá því. Þannig fór ég t.a.m. á nokkurra ára fresti og leysti af í tvær til þrjár vikur í héruðum ásamt því að fara á gömlu deildina mína á Karólínska sjúkrahúsinu í Svíþjóð þar sem ég hafði verið aðstoðaryfirlæknir á u.þ.b. þriggja ára fresti til að fylgjast með svo ég vissi eitthvað sjálfur og þyrfti ekki að fá að heyra allt frá öðrum.

Hvernig kom það til að þú fórst að beina sjónum að beinverndarmálum?

Það má kannski segja að vísirinn af því var að í starfi mínu sem landlæknir fór ég að vinna mikið í slysamálum. Það var mjög há tíðni slysa hér á Íslandi, bæði í umferðinni og víðar. Þá var tvennt sem maður rak augun mikið í en það voru brotin og svo eitranir. Við fórum að sinna þessum brotum betur t.d. með því að bæta skráninguna mjög vel og stofnuð voru slysaráð víða um land. Einnig kom landlæknisembættið að undirbúningi við lagasetningu og reglugerð um notkun bílbelta og hjálma í umferðinni. Þessi vinna skilaði sér því á nokkrum árum fór Ísland úr því að vera með mjög háa slysatíðni í það að verða lægst á Norðurlöndunum. Það var eins með eitranir en tíðni eitrana sem kom á slysadeildina á Borgarspítalanum var afar há. Við gáfum út eitranabók fyrir heimilin  og það varð til þess að eitrunartilfellum fækkaði mjög mikið.

En hvað um það, brotin urðu til þess að við fórum að hugsa um beinvernd. Það tengdist þessu einnig að upp úr 1970 varð mikil vakning í þá átt að allir ættu að fara að hreyfa sig. Það var á þeim tíma sem Sigurður Magnússon, framkvæmdastjóri ÍSÍ, kom að máli við mig í Hjartavernd og við stofnuðum sérstaka hreyfingu fyrir almenningsíþróttir sem var kölluð Trimm. Við börðumst fyrir því að efla hreyfingu sem mest og fengum gott fólk í lið með okkur. Þjóðin hreyfði sig almennt mjög lítið á þessum tíma en nú sér maður fullt af fólki að hlaupa út um allt og það er kannski besta vörnin gegn beinþynningu. Ég man líka þessu tengt að þegar Ingibjörg systir mín kom úr námi í barnahjúkrun frá Kaupmannahöfn hafði hún með sér hjól og fór að nota það til að fara til vinnu. Á þessum tíma var enginn á hjóli svo bílarnir hreinlega stoppuðu og fólk horfði í forundran á þessa sjón. En hvað Beinvernd varðar þá endaði með því að árið 1997 sendi ég út bréf og boðaði til fundar þar sem kom fullt af fólki og við stofnuðum þessi samtök. Nokkrir aðilar komu sérstaklega að beinverndarstarfinu á þessum upphafsárum  og má þar t.d. nefna Gunnar Sigurðsson, Brynjólf Mogensen, Björn Guðbjörnsson og Halldóru Björnsdóttur.

Hvert var þitt hlutverk sem fyrsti formaður Beinverndar?

Það var aðallega utanumhald en svo t.d. þegar ég var á ferðum mínum um landið á vegum embættisins að heimsækja heilsugæslustöðvar þá talaði ég auðvitað um beinvernd í leiðinni. Svo fórum við og töluðum við mjólkuriðnaðinn sem skildi þörfina og setti pening í verkefnið þannig að hægt var að ráða starfsmann í hálft starf.  Við fórum líka og töluðum við pólitíkusa í t.d. Heilbrigðisnefnd Alþingis og fjárveitinganefnd. Það tók töluverðan tíma en hjálpaði okkur mikið.

Að lokum, hefur þú sjálfur lent í því að beinbrotna og hvernig gætir þú þinnar eigin beinheilsu?

Ég er níræður að verða og hef aldrei beinbrotnað. Varðandi það að gæta minnar eigin beinheilsu þá hreyfi ég mig allavega nokkuð reglulega. Þegar við byrjuðum í Hjartavernd með Rannsóknarstöðina þá fórum við að nota þrekhjól sem höfðu ekki verið til hér og upp úr því keypti ég mér þrekhjól hingað heim sem ég notaði eitthvað. Núna hjóla ég reglulega eða svona fjórum til fimm sinnum í viku. Ég fer upp í sjúkraþjálfun í Héðinshúsi þar sem mætir margt gott fólk. Þessar stöðvar eru bara alltaf fullar en það var ekki til  hérna áður fyrr. Þetta hefur haft gífurleg áhrif og fólk lifir lengur núna.

Upp