Góð aðsókn á rástefnu Beinverndar á alþjóðlegum beinverndardegi.

21.10.2017

Beinvernd stóð fyrir ráðstefnunni „Betra er heilt en vel gróið“ föstudaginn 20. október sl. í tilefni alþjóðlegs beinverndardags, og fór hún  fram í Blásölum á 7. hæð Landspítalans í Fossvogi.

Dagskráin hófst á ávarpi heilbrigðisráðherra, Óttarrs Proppé. Þá tók Bergþóra Baldursdóttir, sjúkraþjálfari, við og greindi frá niðurstöðum úr nýlegu doktorsverkefni sínu sem hún nefndi Hvað einkennir þá sem detta og úlnliðsbrotna? Fram kom í erindi Bergþóru, að óstöðugleiki og byltur eru eitt af þeim meginvandamálum, sem tengjast hækkandi aldri. Þriðji hver 65 ára einstaklingur dettur árlega, og tíðni byltna tvöfaldast á fimm ára fresti eftir þann aldur. Áverkar og beinbrot eru algengar afleiðingar, sem fylgja byltum. Úlnliðsbrot er algengasta, fyrsta brot hjá konum á Íslandi og þriðja algengasta brot hjá körlum. Eftir slík brot má síðar búast við fleiri brotum svo sem mjaðmarbrotum, og því er vert að beina athygli og meðferð að þeim sem detta og úlnliðsbrotna.

Birkir Friðfinnsson, sjúkraþjálfari, fræddi ráðstefnugesti um verkefnið Grípum brotin, sem hefur verið í undirbúningi á Landspítalanum í nokkurn tíma. Fyrirmynd að verkefninu kemur frá alþjóða beinverndarsamtökunum IOF og snýst um meðferð og eftirfylgd vegna mögulegrar beinþynningar til þess að minnka líkur á brotum.

Sigurbergur Kárason, læknir, fjallaði um rannsókn sína um meðferð og afdrif sjúklinga sem mjaðmarbrotna. Þar kom m.a. fram, að dánartíðni er há í kjölfar mjaðmarbrots, og margir þurfa aukna þjónustu eftir brot. Brýnt sé að hlúa vel að þessum sjúklingum á sérhæfðum endurhæfingardeildum til þess að flýta fyrir bata. Auk þess telur Sigurbergur nauðsynlegt að bæta skráningu mjaðmarbrota.

Guðrún Jóna Bragadóttir, næringarráðgjafi, og Hildur Thors, læknir, ræddu um beinþéttni og þyngdartap og þá leið sem farin er á Reykjalundi til að aðstoða þá sem þurfa að léttast mikið. Anna Björg Jónsdóttir, formaður Beinverndar, flutti lokaorð og sleit ráðstefnunni.

    
Bergþóra Baldursdóttir, sjúkraþjálfari             Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra

Upp