Grípum brotin

29.11.2017

Grípum brotin er gæðaverkefni sem er búið að vera í undirbúningi á Landspítalanum í nokkurn tíma. Það er að fyrirmynd Alþjóða beinverndarsamtakanna (IOF) og snýst um að þeir einstaklingar sem brotna fái fullnægjandi meðferð er snýr að nánari eftirfylgd vegna mögulegrar beinþynningar og þannig minnka líkur á frekari brotum.

Við vitum að þriðjungur kvenna 50 ára og eldri brotna vegna beinþynningar. Fimmtungur karlmanna brotnar líka en algengur misskilningur er að karlmenn verði ekki fyrir beintapi.

Í upphafi mun verkefnið snúast um að finna þá einstaklinga sem orðið hafa fyrir  framhandleggsbroti.  Í júní 2017 leituðu 36 einstaklingar 45 ára eða eldri með framhandleggsbrot á bráðamóttöku Landspítalans. Meðalaldur þessa hóps eru 63,4 ár og hlutfall kvenna 86%. Fjöldi brota eftir árstíðum hefur haldist nokkuð svipaður því þótt hálkuslys hverfi að vori taka frístundaslys við að sumarlagi.

Þegar búið er að fara yfir skráningu við komu á bráðamóttöku kemur í ljós að 19 einstaklingar af þessum 36 þyrftu beinþéttnimælingu samkvæmt þeim skilmerkjum sem unnið er eftir. Ferðamönnum sem brotna hér á landi er sendur tölvupóstur þar sem þeim er bent á að leita til síns læknis  til frekari eftirfylgdar. Alls leituðu fjórir ferðamenn með framhandleggsbrot á bráðamóttöku.

Áður nefnd skilmerki við brot á framhandleggsbeinum er auk aldurs að um lágorku áverka sé að ræða. Lágorkuáverki hlýst af falli úr sitjandi eða standandi stöðu á jafnsléttu . Ef viðkomandi stendur á borði eða stól, hrasar niður fyrir sig í tröppum eða dettur af reiðhjóli eru kraftar orðnir stærri og þar með flokkast brotið sem háorkuáverki.

Eftir því sem verkefnið hefur sig til flugs munum við bæta við fleiri tegundum brota. Þar eru brot eins og lærleggsháls- og mjaðmagrindarbrot, brot á upphandlegg, brot á rifjum og samfallsbrot í hryggjarsúlu.

Ástæðan fyrir því að farið er af stað með framhandleggsbrotin er að um yngsta hópinn er að ræða. Ef beinþéttnimæling sýnir að um beinþynningu er að ræða er mikilvægt að hefja meðferð strax því þannig getum við minnkað áhættu á frekari brotum og brotum sem skerða lífsgæði og geta leitt til dauða síðar á ævinni. Önnur ástæða þess að þessi hópur varð fyrir valinu er að erfiðara er að greina til að mynda samfallsbrot í hryggsúlu en það er oft og tíðum gert án myndgreiningar. Þriðja ástæðan er sú að við þurfum að átta okkur á umfangi vandans. Þótt til séu gögn sem geta hjálpað okkur í þeirri vinnu þurfum við að átta okkur á tímanum og mannaflanum sem þarf til að slíkt kerfi geti dafnað og eflst.

Einnig er ljóst að slíkt kerfi getur ekki þrifist nema með samvinnu allra heilbrigðisstétta sem koma að beinbrotum, hvort sem það er Landspítali eða Heilsugæsla. Beinvernd getur eins og verið hefur gegnt lykilhlutverki í forvörnum og fræðslu. Góð samvinna hefur verið milli Landspítala og Beinverndar en  sífellt þarf að endurskoða hvaða miðla er best að nota til að ná til fólks. Ljóst er að á meðan einn einstaklingur notar snjalltækni til að afla sér upplýsinga notar sá næsti pappírsform. Það er því nokkur áskorun að ná til allra sem þurfa á þjónustunni að halda.

Eins og glöggir lesendur gera sér grein fyrir snýst verkefnið um annars stigs forvarnir. Það þýðir að inngrip á sér stað eftir að viðkomandi hefur brotnað. Auðvitað væri ákjósanlegt að koma í veg fyrir öll þessi brot en það er ekki markmið þessa verkefnis og heyrir undir fyrsta stigs forvarnir. Við getum samt sem áður haft mikil áhrif á beinheilsu okkar með góðu samblandi af hreyfingu og mataræði. Þrátt fyrir að snjalltækni sé nú orðin mikilvægur þáttur í lífi okkar flestra er hætt við því að hún taki full mikinn tíma. Tíma sem mætti nota til líkamsþjálfunar. Ástæðan fyrir því að líkamsþjálfun er mikilvægasta tækið sem við höfum til að koma í veg fyrir beintap er sú að ef við notum ekki bein og vöðva rýrnum við og töpum styrk. Hreyfingin þarf þó að vera af þeim toga að hún myndi álag á beinin. Í því samhengi má nefna göngu, skokk, badminton og lyftingar.  Að þessu þarf að huga snemma á æviskeiðinu og því mikilvægt að ungt fólk sé meðvitað um beinheilsu sína strax á grunnskólaaldri.

Fyrir áhugasama lesendur bendum við á heimasíðu Alþjóða beinverndarsamtakanna www.iofbonehealth.org og www.capture-the-fracture.org

Að lokum viljum við hér á Landspítala óska Beinvernd innilega til hamingju með afmælið og hvetjum þau áfram til góðra verka með dyggum stuðningi og góðri samvinnu hér eftir sem hingað til.

Höfundur: Birkir Friðfinnsson, sjúkraþjálfari og brotatengill, Innkirtladeild, Landspítala
Birkir er sjúkraþjálfari að mennt. Hann vann í öldrunarþjónustu fyrst eftir útskrift 2014, en færði sig fljótlega yfir á Innkirtladeild þar sem hann gegnir hlutverki skimunarstjóra. Skimunarstjóri tekur á móti fólki við komu á göngudeild og skimar fyrir fótameinum og sjónukvilla en þessi hluti starfsins snýst þó eingöngu um einstaklinga með sykursýki. Hinn stóri þáttur í starfi Birkis sem skimunarstjóra snýr að einstaklingum sem hafa hlotið beinbrot. Undanfarin misseri hefur vinna hans snúist um að koma upp verklagi sem gerir starfsfólki verkefnisins Grípum brotin kleyft að finna einstaklinga sem brotna, meta þörf á nánari eftirgrennslan og koma fólki þar með á beina braut. Það þýðir að við beinbrot hefst ákveðið ferli sem miðar að því að þeir sem þurfa meðferð vegna beinþynningar fái hana eins fljótt og hægt er og einnig viðeigandi eftirfylgd, hvort sem er á Landspítala eða hjá heimilislæknum.

 

Upp