Hvað einkennir þá sem detta og úlnliðsbrotna?

29.11.2017

Óstöðugleiki og byltur eru eitt af meginvandamálum sem tengjast hækkandi aldri. Þriðji hver 65 ára einstaklingur dettur árlega og tíðni byltna tvöfaldast á fimm ára fresti eftir þann aldur. Áverkar og brot eru algengar afleiðingar byltna og á hverju ári koma yfir þúsund einstaklingar af höfuðborgarsvæðinu á slysa- og bráðadeild Landspítala í kjölfar byltu og greinast með beinbrot. Úlnliðsbrot er algengasta fyrsta brot kvenna á Íslandi og þriðja algengasta fyrsta brot íslenskra karla.

Stjórnun jafnvægis í uppréttri stöðu og hreyfingu er flókið ferli samhæfðra hreyfinga sem stýrt er af miðtaugakerfi og byggjast á boðum frá skynkerfum. Þannig veitir sjónin upplýsingar um aðstæður í umhverfinu og skynviðtakar í vöðvum, sinum, liðböndum og húð gefa upplýsingar um stöðu og hreyfingar líkamans ásamt þungadreifingu á iljum. Jafnvægiskerfi í hægra og vinstra innra eyra skynja stöðu og hreyfingar höfuðs með tilliti til aðdráttarafls jarðar, þau samþætta höfuð- og augnhreyfingar og virkja fallviðbrögð þegar stöðugleika okkar er ógnað. (mynd 1)

Hrörnunarbreytingar tengdar auknum aldri hafa fundist í öllum kerfum líkamans sem taka þátt í jafnvægisstjórnun. Kunnugt er að skynviðtökum í jafnvægiskerfi innra eyra og taugaþráðum sem bera boð frá þeim fækkar með auknum aldri. Þessar breytingar geta gerst með ósamhverfum hætti, þ.e. minni starfsemi verður í jafnvægiskerfi annars eyrans miðað við hitt. Slík ósamhverfa leiðir til truflaðra skilaboða frá jafnvægiskerfinu, fallviðbrögð verða ómarkvissari og hætta á byltum eykst. Vitað er að skyn og vöðvastyrkur í fótum minnkar með hækkandi aldri og hefur það verið tengt óstöðugleika og dettni meðal aldraðra.

Úlnliðsbrot eru algengust hjá einstaklingum á aldrinum 45-65 ára. Meðferð þeirra sem hljóta úlnliðsbrot við byltu, beinist að meðhöndlun brotsins. Jafnvægi er sjaldnast metið, þar sem takmörkuð þekking liggur fyrir um hvort aldurstengdar breytingar í skyn- og hreyfikerfum séu farnar að skerða jafnvægisstjórnun hjá þessum hópi.

Nýlokið er framkvæmd íslenskrar rannsóknar meðal einstaklinga á aldrinum 50-75 ára sem leituðu á slysa- og bráðadeild Landspítala í kjölfar byltu og greindust með úlnliðsbrot. Mælingar voru gerðar á jafnvægiskerfi í innra eyra, skyni í fótum, jafnvægi, gönguhraða og vöðvastyrk. Upplifun einstaklinganna á öryggi og svima við daglegar athafnir var einnig metin með spurningarlistum. Sömu mælingar voru gerðar á einstaklingum sem ekki höfðu dottið og úlnliðsbrotnað og parað m.t.t. aldurs, kyns og hreyfingar.

Niðurstöður leiddu í ljós að þeir sem höfðu dottið og úlnliðsbrotnað voru með marktækt fleiri byltur og beinbrot að baki en þeir sem ekki höfðu hlotið úlnliðsbrot við byltu. Tíðni ójafnrar starfsemi í jafnvægiskerfi innra eyra, þrýstingsskyn undir iljum, jafnvægisstjórnun, gönguhraði og styrkur í fótum var jafnframt marktækt verri hjá úlnliðsbrotahópnum. Einnig upplifðu þeir sem höfðu úlnliðsbrotnað marktækt meiri svima, óstöðugleika og óöryggi við daglegar athafnir.

Þeir þættir sem spáðu sterkast fyrir um líkur þess að hljóta úlnliðsbrot, voru ójöfn starfsemi í jafnvægiskerfi innra eyra, sem gaf fimmfalda áhættu, skerðing á þrýstingsskyni undir iljum, sem fjórfaldaði áhættuna og skertur vöðvastyrkur í fótum sem tvöfaldi áhættuna. (mynd 2)

Úlnliðsbrot hafa forspárgildi fyrir síðari brot, þar á meðal mjaðmarbrot hjá öldruðum, sem skert geta verulega lífsgæði, jafnvel valdið dauða og eru mjög kostnaðarsöm. Aðgerðir til að hindra byltur og úlnliðsbrot eru því mjög mikilvægar. Niðurstöður þessarar rannsóknar benda á þætti sem vert er að beina athygli að við skoðun og meðferð þeirra sem detta og úlnliðsbrotna.

Heimildir:

Blake AJ, Morgan K, Bendall MJ, Dallosso H, Ebrahim SB, Arie TH, et al. Falls by elderly people at home: prevalence and associated factors. Age Ageing. 1988;17(6):365-72.

Siggeirsdottir K, Aspelund T, Jonsson BY, Mogensen B, Gudmundsson EF, Gudnason V, et al. Epidemiology of fractures in Iceland and secular trends in major osteoporotic fractures 1989-2008. Osteoporos Int. 2014; 25(1):211-9.

Kristinsdottir EK, Jarnlo G-B, Magnusson M. Aberrations in postural control, vibration sensation and some vestibular findings in healthy 64-92-year-old subjects. Scand J Rehabil Med. 1997;29(4):257-65.

Kristinsdottir EK, Jarnlo G-B, Magnusson M. Asymmetric vestibular function in the elderly might be a significant contributor to hip fractures. Scand J Rehabil Med. 2000;32(2):56-60.

Kristinsdottir EK, Nordell E, Jarnlo G-B, Tjader A, Thorngren K-G, Magnusson M. Observation of vestibular asymmetry in a majority of patients over 50 years with fall-related wrist fractures. Acta Otolaryngol. 2001;121(4):481-5.

Cuddihy MT, Gabriel SE, Crowson CS, O’Fallon WM, Melton LJ, 3rd. Forearm fractures as predictors of subsequent osteoporotic fractures. Osteoporos Int. 1999;9(6):469-75.

Mallmin H, Ljunghall S, Persson I, Naessen T, Krusemo UB, Bergstrom R. Fracture of the distal forearm as a forecaster of subsequent hip fracture: a population-based cohort study with 24 years of follow-up. Calcif  Tissue Int. 1993;52:269-72.

Braithwaite RS, Col NF, Wong JB. Estimating Hip Fracture Morbidity, Mortality and Cost. J Am Geriatr Soc. 2003;51:364-70.

Höfundur: Bergþóra Baldursdóttir, sérfræðingur í öldrunarsjúkraþjálfun.
Bergþóra starfar á byltu- og beinverndarmóttöku og göngudeild sjúkraþjálfunar á Landakoti. Bergþóra hefur helgað öldruðum starfsferil sinn, nám og rannsóknir með megináherslu á mat, meðferð og ráðgjöf vegna óstöðugleika og byltna. Hún hefur þróað, ásamt Dr. Ellu Kolbrúnu Kristinsdóttur, sértæka skynþjálfun frá grunni og forprófað á öldrunarlækningadeild Landspítala á Landakoti. Frekari rannsóknir á þjálfunaraðferðinni hjá einstaklingum sem hafa dottið og úlnliðsbrotnað, ásamt því hvað einkennir þennan hóp, er viðfangsefni doktorsnáms Bergþóru við Háskóla Íslands, sem hún stundar samhliða starfi sínu á Landspítala. Heiti doktorsverkefnis hennar er „Jafnvægisstjórnun hjá einstaklingum sem hlotið hafa úlnliðsbrot við byltu og áhrif skynþjálfunar“.

Upp